How Can We Help?

Snjöll ráðgjöf

Þú ert hér:
< Allt efni

Við fáum oft fyrirspurnir frá húsbyggjendum hvað á að hafa í huga í hönnunar- og byggingarferli þegar kemur að snjallvæðingu heimilisins. Það er ekkert verra en að þurfa að brjóta upp steypu, leggja kapla meðfram veggjum eða einfaldlega að eiga ekki möguleika á að snjallvæða heimilið vegna þess að það var ekki hugsað út í það frá upphafi… Það er gott að hafa snjallheimilið í huga þegar verið er að hanna og byggja draumahúsið eða -bústaðinn. Samt má ekki gleyma að ekkert varir að eilífu og það þarf að gera ráð fyrir að eigendur sem koma á eftir þér vilja mögulega ekki hafa snjallheimili eins og þú eða snjallheimili yfir höfuð. Þess vegna er alltaf gott að miða við hefðbundna raflagnahönnun með einhverjum undantekningum sem við munum ráðleggja þér með.

Hafa skal í huga að við veitum góð ráð eftir reynslu okkar og markmiðum okkar um skilvirkni, áreiðanleika og hagkvæmni. Það er ekki þar með sagt að við höfum alltaf rétt fyrir okkur og önnur sjónarmið séu ekki jafngild.

Heilstæðar lausnir

Þegar farið er af stað er ágætt að hafa einhverja hugmynd um hvaða lausnir eru í boði og hvaða lausnir henta manni. Mikilvægt er skoða snjalllausnir í heilstæðu samhengi til að mála sig ekki fljótlega í horn þegar kemur að því að bæta við eða breyta. Það er fullt af góðum lausnum til en flestar þeirra sérhæfa sig í einhverju ákveðnu (t.d. ljósastýringum, öryggiskerfi eða hitastjórnun). Ef á að samhæfa þessar lausnir þarf að tryggja að lausnirnar vinni saman og helst að þær eru samhæfðar við annað hvort Google Home, Apple Homekit eða Amazon Alexa. Raddstýring er alveg frábær leið til að kenna lítlum börnum eða eldra fólki og hentar sérstaklega vel fyrir fólk með hreyfihömlun eða aðrar fatlanir.

Heildstæðar lausnir á borði Apple Homekit, free@home eða önnur BUS kerfi eru yfirleitt miklu dýrari. Annar ókostur er skuldbinding til að kaupa búnað sem virkar með þessum kerfum. Lausnir sem við bjóðum upp á hjá Snjallingi eru byggð á Homeassistant snjallkerfi. Homeassistant er vinsælasta og að okkar mati öflugasta hússtjórnunarkerfið sem til er í dag. Stærsti kosturinn við þetta kerfi er sá möguleiki að geta tengst (nánast) hvaða búnaði og lausnum sem til eru og geta því stjórnað öllu úr einu og sama appinu.

Single point of failure (flöskuhálsinn)

Snjallar lausnir bera oft þann ókost með sér að margt ef ekki allt er háð eða stjórnað í gegnum einhverja miðlæga stjórnstöð (eins og t.d. Home Assistant). Stjórnstöðin á að sjá um að koma upplýsingum og skilaboðum frá einum stað til annars. Það getur verið hreyfiskynjari sem sendir boð og kveikir á ljósi eða hitamælir sem sendir boð og slekkur á hitanum. Samt verður alltaf að gera ráð fyrir því að einhver bilun getur komið í stjórnstöðina en til þess að fyrirbyggja þetta þarf varaplan að vera til staðar sem tryggir að það sé hægt að stjórna ljósum eða hita með aðgengilegum rofum. Verst væri ef maður kæmist ekki inn til sín vegna bilunar í öryggiskerfinu. Það skiptir kannski ekki öllu ef ljósið kviknar ekki við hreyfingu, þá er alltaf hægt að tala við Google, en það skiptir eflaust máli að geta hækkað og lækkað hitann eða slökkt á ljósinu í svefnherberginu með tilskildum rofa.

Samkiptatækni

Í andstæðu við BUS kerfi eins og KNX eða free@home eru algengustu snjallkerfin í dag þráðlaus. Það þýðir að við þurfum ekki að huga að því fyrirfram hvar einhver hreyfiskynjari eða reykskynjari verður staðsettur. Það er samt ágætt að hugsa aðeins út í hvaða samskiptatækni á að nota. Zigbee og Zwave samskiptalausnir bjóða upp á mesh kerfi sem gerir hverju vírtengda snjalltæki kleift að áframsenda skilaboð og því getur síðasta snjalltækið verið langt frá miðlægri snjallstöð sem sér um samhæfingu tækja. Nýji samskiptastaðallinn Matter hagar sér eins. Hins vegar eru WiFi tengd snjalltæki háð aðgangi að netinu (router eða access point). Það er afar gott að halda sig við eitthvað af þessum stöðlum og blanda þeim ekki mikið saman til að tryggja að öll snjalltækin geta átt samskipti við stjórnstöðina.

Zigbee staðallinn er að okkar mati besta lausnin þar sem breitt og gott úrval er á búnaði og hann er bæði áreiðanleigur og hagkvæmur í verði. Svo býður hann upp á þann skemmtilegan valmöguleika að tengja ljós og rofa saman án aðkomu stjórnstöðvarinnar (touchlink).

Mikið er fjallað um Matter (byggt á Thread tækninni) og það er enn óljóst hvernig þessi samskiptatækni mun þróast. Við teljum samt ólíklegt að Zigbee snjalltækin munu hætta í framleiðslu eða þróun. Eins og staðan er í dag þarf að bíða allavega til seinni hluta 2023 til að spá eitthvað fyrir um frekari þróun á þessu sviði.

Lýsing

Lýsing á heimilinu er án efa vinsælasta snjalllausnin á heimilum í dag. Vinsældirnar komu að miklu vegna aðgengilegra startpakka Phillipps Hue og IKEA Tradfri sem bjóða upp á einfaldar lýsingarlausnir þar sem hægt er að stýra ljósum með fjarstýringu eða í gegnum app. Lýsing er mikilvægur hluti af lífi okkar á Íslandi þar sem við búum marga mánuði með engu eða afar litlu sólarljósi auk þess sem er lýsingin stór hluti af vellíðan okkar og getur hjálpað okkur að byrja daginn. Snjalllýsingin getur gert svo mikið hér. Ljósdimmir, litaprýði og skemmtilegar ljósasenur sem hægt er að kveikja á með einum smell. Auðvitað er það líka leið til að spara orku þar sem við getum látið slökkva á ljósum þegar það er bjart úti eða einhver á heimilinu gleymir að slökkva ljósið á eftir sér (ekkert fer meira í taugarnar á mér en að sjá kveikt ljós í herbergjum þar sem enginn er).

Við getum búið til snjalllýsingu á marga vegu:

Sambyggð snjallljós. Það er einfalt að tengja þau í venjulegt rafmagn og þær koma í hefðbundum perustærðum og er því hægt að nota sem loft-, vegg- eða standljós.

Snjallperur sem eru settar í umgjörð að eigin vali. Snjallperurnar koma í öllum helstum perustærðunum (GU10, E14). Gríðarlegt úrval er á snjallperum.

Snjalldimmerar sem eru settir í hefbundnar raflagnadósir. Snjalldimmerum er einnig hægt að stýra með hefðbundnum þrýstirofa og hentar því sérstaklega í snjallvæðingu á eldra húsnæði. Engu að síður er gott að gera ráð fyrir einhverjum snjallpungum (dimmerum eða slökkvurum) í loftdósunum og því er gott að notast við sérstaklega stórar eða djúpar rafmagnsloftdósir. Það er einnig hægt að setja snjallpung í rafmagnsdós fyrir slökkvara en þá er einmitt gott að draga núll í þær dósir því flestir snjallpúngar virka einungis (eða allavega best) með bæði núll og fasa.

Þó að það sé allt í lagi að setja þessa punga fyrir innan raflagnadósir þá skal alltaf gera ráð fyrir nægilegu loftflæði og passa að það sé ekki þrengt að þeim. Einnig ætti aldrei að setja fleiri en einn snjallpung í hverja rafmagnsdós. Það er ekki óeðlilegt að snjallpungar hitni töluvert, eða allt að 60 gráðum. Tæki frá Shelly hafa þennan ókost og er endingatíminn samkvæmt því.

Hitastýring

Hitastýring í nýbyggingum á Íslandi fer yfirleitt fram í gegnum vatnsofnakerfi eða gólfhitakerfi burt séð frá afar fáum tilfellum þar sem rafmagnsofnar eru notaðir. Kosturinn við vandaða snjalla ofnastilla er að það er hægt að tengja þá við hitamæli sem getur verið staðsettur á öðrum stað (t.d. innar inn í rými) en mælirinn sem er innbyggður inn í ofnastillinn.

Gólfhitakerfi getur hins vegar verið flóknara þar sem fleiri breytur koma inn í málið. Má þar nefna hitann sem fer inn í slaufurnar (kallast framrásahiti), hraðinn sem vatnið rennur í gegnum slaufurnar og svartíma gólfhitakerfisins bæði þegar kemur að tímanum sem tekur að hita og kæla rýmið. Flest gólfhitakerfi eru stillt með fastan framrásahita og fastan dæluhraða og stjórnast nánast alfarið af motórlokum sem opna og loka fyrir vatnið sem fer inn í slaufurnar og þar með rýmið. Snjöll hitastýring getur hér gert kraftaverk með því að nota útihitastigið til að stjórna framrásahitanum. Það minnkar jafnframt álgið á motórlokunum og framlengir þar með notkunartíma þeirra. Nauðsynlegt er að leggja venjulegt 230V rafmagn að hitakistunni og jafnvel gera ráð fyrir lítilli rafmagnstöflu sem getur varið rafmagnið fyrir vatnstjóni og hýst snjalltæki sem getur mælt vatnshitann í fram- og bakrásum. Það gæti líka verið ágætt að leggja netsnúru fyrir frekari í verkefnum í framtíðinni.

Hús sem eru hönnuð með gólfhita gera líka ráð fyrir hitastilli (e. thermostat). Lagnirnar að hitastillum eru einskonar lágspennukaplar þar sem gert ráð fyrir tengingu við BUS kerfi eða beinni tenginu við gólfhitakerfið. Við mælum klárlega með því að leggja 230V spennu að þessum stöðum. Það er gert til þess að tengja snjalla hittastilla eða ef það er óþarfi að setja eins konar stjórnborð á staðinn. Það getur verið lítil spjaldtölva eða lítið forritanlegt stjórborð eins og NSPanel frá Sonoff.

Nettenging

Að vera nettengdur er stærsta krafan frá unglingunum okkar en einnig eru allmörg snjalltæki háð nettenginu að einhverju leyti. Nettengingin getur verið þráðlaus eða víruð. Fyrir góða þráðlausa nettenginu er best að huga að góðri útbreiðslu og staðsetja svokallaða tengipunkta eða access points á völdum stöðum. Þessir tengipunktar þurfa að tengja með netsnúru í netbeini (e. router). Góð staðsetning fyrir tengipunkta er í loftinu í miðju rými, sem er að okkar mati snyrtilegasta lausnin þar sem það þarf ekki að ryksuga í kringum þá. Vissulega er smá flækjustig í uppsetningu en ágóðinn er öflug þráðlaus tenging. Mesh kerfin eru einnig vinsæl en við erum ekki sérstaklega hrifin af þeim.

Yfirleitt er gert ráð fyrir víraðri nettengingu og sumir eru alveg óðir í að leggja netsnúrur í allt. Vissulega er gott að gera ráð fyrir víraðri nettengingu á flestum stöðum en alls ekki nauðsynlegt í öllum tilfellum. Ef á að leggja nýja netsnúru væri örugglega ráðlagt að notast við CAT6 kapla þar sem afkastagetan er margfalt meiri en í gegnum hefðbundinn CAT5 kapal. Þannig getum við líka tryggt að við fáum sem mest út úr tækjum og gagnaflutningshraða framtíðarinnar.

Á meðan við erum að tala um víraða nettengingu þá er nauðsynlegt að nefna tengingu við myndavéla- eða dyrabjöllukerfi. Sum af þessum tækjum styðja einnig PoE (straum í gegnum netkapal) þannig að PoE myndavélar og dyrabjöllur geta borið straum og netumferð.

Nettenging fer alltaf í gegnum router og í dag oftast í gegnum ljósleiðara til að tryggja góða afkastagetu og hraða. Við viljum gjarnan hafa routerinn aðgengilegan í miðju húsi en ljósleiðaraboxið og dreifibunaðinn í smáspennutöflu. Það krefst þess að við séum með a.m.k. tvær vírtengingar á milli smáspennuskáps og fyrirhugaðri staðsetningu á routernum.

Sjónvarpstenglar

Sjónvarpstenglar eru ennþá teiknaðir og dreginir í hús. Þó notkunin fer vissulega minnkandi er alltaf gott að hafa varaleið í gegnum DVB-T/T2 útsendingu. DVB-T/T2 staðalinn ber bæði sjónvarps- og útvarpsútsendingar og það meira að segja í háskerpuupplausn. En til þess þarf auðvitað UHF-loftnet sem þarf að leggja sjónvarpskapal að.

Dyrabjalla

Úrvalið af snjöllum dyrabjöllum er gríðarlegt. Flestar lausnir á því sviði eru byggðar á þráðlausri WiFi tengingu sem er ekki endilega góður kostur þar sem WiFi tenging utandyra getur verið slæm. Snjallar dyrabjöllur eru nánast alllar með innbyggðri myndavél sem krefst góðrar nettengingar. Þess vegna mælum við með víraðri nettengingu út í dyrabjöllu og helst viljum við að dyrabjallan tengist í gegnum PoE sem færir dyrabjöllunni rafmagn í leiðinni. Ef dyrabjallan styður ekki PoE þá þarf að gera ráð fyrir lágspennuvírum út frá spennubreyti sem leiða í rafmagnstöflu.

Huga þarf líka að bjölluhlóðinu innandyra. Sumar dyrabjöllur styðja tengimöguleika við bjöllu sem getur komið sér vel ef net- eða snjallkerfið liggur niðri til að koma skilaboðum á húseigandann, sé hann heimafyrir.

Niðurstaðan er sú að það er æskilegt að leggja tvo aðskilda netkapla að dyrabjöllunni.

Læsingar

Núorðið er til gott og mikið úrval til af snjalllæsingum. Hinsvegar eru góðar lausnir ekki ódýrar og þarf að skoða sérstaklega hvort og þá hvaða læsing hentar hverju sinni. Þessar læsingar henta oft ekki íslenskum lásakerfum þar sem þarf að lyfta handföngum upp til að geta læst. Við myndum heldur ekki mæla með læsingakerfi þar sem þarf að skipta um sílender og þar með lykil. Þessa lausnir bjóða ekki upp á master kerfi ef menn eru með fleiri en eina útidyrahurð. Snjalllæsingar eru rafhlöðudrifnar. Endingin á rafhlöðum í þessum lásum er ekki sérstaklega löng og því má gera ráð fyrir einhverjum viðhaldskostnaði.

Ekki má gleyma gömlu góðu rafmagnslæsingunni sem er afar auðvelt að snjallvæða. Auðvitað er innbrotsvörnin ekki eins góð og í þriggja púnkta læsingakerfi. En það eru samt til útidyrahurðir sem eru með gott öryggi og bjóða upp á rafmagnslæsingu og -aflæsingu sem hægt er að snjallvæða.

Pottastýring

Margt og oft er spurt um snjallar pottastýringar. Til að stýra heitum (heitavatns)pottum þarf nokkra hluti sem er tiltölega auðvelt að stýra í gegnum snjallstjórnstöð (eins og Home Asssistant):

  • Blönundartæki blanadar heita og kalda vatnið og stýrir hitastigi vatnsins sem rennur inn í pottin. Yfirleitt er það handstýrt og er hitinn aðeins hækkaður yfir vetratímann þar sem hitatapið er þá meira en á sumrin. Auðvitað væri líka hægt að sjálfvirknisvæða þennan part en mótordrifið blöndunartæki er ekki ódýrt. Það er að sjálfu sér ekki galið þar sem yfirleitt er betra að hækka hita vatnsins sem rennur í pottinn eftir að hann er fullur til að flýta fyrir því að vatnið í pottinum nái æskilegu hitastigi.
  • Segullok opnar og lokar fyrir vatnið sem streymir í pottinn. Segullokið er staðsett fyrir aftan blöndunartækið.
  • Mótorlok (rafdrifið kúlulok) sem opnar og lokar fyrir frárennslið til að tæma og fylla pottinn. Þar sem mótorlokið er staðsett við heita pottinn þarf að leggja rafmagn þangað. Snjallstýring fyrir mótorlokinu ætti helst að vera innandyra og því er gott að leggja 5 strengja rafmagnssnúru að því.
  • Hitaskynjarar. Augljóslega þarf einhvern hitaskynjara til að segja til um hvernig hitastigið er í pottinum til að ákveða hvort þurfi heitt vatn eða hvort það sé búið að ná æskilegu hitastigi og þurfi að gefa boð um að loka segullokinu til að stoppa innstreymið í heita potttinn.

Það er sem sagt alveg hægt að smíða sína eigin pottastýringu og koma öllum nauðsynlegu upplýsingunum inn í hússtjórnunarkerfið til að fylgast með hitastiginu og til að geta látið renna í og úr heita pottinum úr fjarska. Kostnaðurinn fyrir snjallbúnaðinn sem þarf í slíkt verkefni er ekki mikill en það er auðvitað smá vinna að koma þessu upp og saman.

Rafmagnstöflur

Rafmagnstöflur hafa þennan króníska veikleika að vera alltaf of litlar. Sérstaklega má þar nefna smáspennutöflur, en þær eru ekki hannaðar fyrir nútímaþarfir snjallheimilisins. Við þurfum að koma öllum sjónvarpsbúnaði, ljósleiðaraboxi og switchum (venjulegt og PoE) í þennan skáp og ganga snyrtilega frá öllum vírum þar.

Hátalarar

Það eru til flott hátalarakerfi sem krefjast annað hvort tenginu við rafmagn (active) eða tengingu við magnara (passive). það er ótrúlega smart að hafa hátalara innbyggða í loftið eða veggina. Það er hins vegar ekki svo smekklegt að leggja hátalarsnúrur meðfram veggjum langar leiðir.

Myndavélar

Það er ágætt að gera ráð fyrir útimyndavélum í einbýlis-, rað- og sumarhúsum. Myndavélarnar ættu að vakta mögulegar innbrotsleiðir fyrir þjófum. Í dag eru myndavélar bæði viðráðanlegar í verði og bjóða góða upplausn. Þó að getan til nætursjónar er vissulega til staðar þá ætti maður ekki ofmeta þessa virkni. Raunveruleg nætursjónarsvið eru u.þ.b. 6-10 metrar, eða þetta er viðmiðið fyrir mynd sem skilar upplýsingum sem er hægt að vinna úr.

Sífellt fleiri myndavélar á markaðinum í dag bjóða upp á andlitsgreiningu, greiningu á bílum eða dýrum. Það þarf samt að hafa í huga að myndavélarnar eru með sitt eigið kerfi og alltaf er spurning um hvernig sé hægt að koma upplýsingum frá þeirra kerfi yfir í hússtjórnunarkerfið. Við mælum með myndavélum sem notast við RTSP streymitækni og bjóða upp á spennufæðingu í gegnum PoE. Þráðlausar WiFi myndavélar geta verið ágætar í súmarhúsum úr timbri.

Í stuttu máli þá er gott að gera ráð fyrir tengingu beint í smáspennutöflu. PoE geta nýst fyrir svæði þar sem er allt að 100m á milli myndavélarinnar og spennutöflunnar , sem ætti að vera alveg meira en nóg fyrir flesta.

Þó að flestar myndavélar séu með IP65 eða jafnvel IP67 vatnsvörn þá er gott að huga að staðsetningu með tilliti til íslensks veðurfars. Það er alltaf gott að hafa vélarnar undir þakkanti eða einhverju skjóli sem veitir vörn gegn rigningu ef á að koma myndavélinni fyrir á hlið sem er útsett fyrir rok og rigningu.

Utilýsing

Við höfum rætt um lýsingar áður en það er ágætt að huga sérstaklega að útilýsingu þar sem hún á það til að vera lengra frá stjórnstöðinni en innilýsingar og gæti þar af leiðandi verið “utan þjónustusvæðis”. Besta og öruggasta leiðin er að stjórna útilýsingum í gegnum snjallbúnað sem er staðsett inni í húsinu. Auðvitað má nota snjallperur utandyra en þá þarf að tryggja samband við hússtjórnunarkerfið á einn eða annan hátt. Þá kæmi til greina að búa til aðgangskerfi utandyra sem er svo tengt með netsnúru inn í hús.

Það er mjög smart að hafa snjallan LED borða í þakkantinum. Þá er best að gera ráð fyrir RGBW eða RGB+CCT LED borða sem notast bæði sem almenn lýsing utandyra en er líka hægt að forrita fyrir ákveðin þemu, t.d. fyrir jólin. LED borðar nota yfirleitt 24V lágspennu og þarf að gera ráð fyrir snjallri LED stýringu ef á að vera hægt að breyta litum í borðanum.

Sírenur

Öryggisins vegna er gott að gera ráð fyrir einhverjum sírenum, miðlægum eða utandyra. Sírenur gagnast ekki aðeins í mögulegum innbrotstilfellum heldur má líka nota til að gera viðvart um eld eða vatnstjón. Snjallar sírenur þurfa yfrileitt tengingu við venjulega rafmagnsinnstungu og því getur verið gott að gera ráð fyrir innstungu þar sem á að koma sírenunni fyrir. Snjöllu sírenurnar eru virkjaðar í gegnum hússtjórnunarkerfið. Þær hafa innbyggða (óaðgengilega) rafhlöðu sem tryggir að sírenuhljóðið heldur áfram þó sírenan sé tekin úr sambandi.

Skynjarar

Nánast allir snjallskynjarar sem fást í dag eru þráðlausir. Kosturinn við þetta er að ekki þarf að gera sérstaklega ráð fyrir rafmagnslögnum eða nettengingu. Varast skal við að nota þráðlausa WiFi skynjara vegna þess að WiFi er orkufrekur samskiptamáti og það leiðir til minni endingar rafhlaðanna.

  • Hreyfi-, hurða- og gluggskynjara má nota bæði í öryggistilgangi og til að stýra ljósum eða hitakerfi.
  • Reyk-, eld- og vatnsskynjarar eru ómissandi á hverju heimili. Þeir geta komið í veg fyrir stór tjón. Sumir reykskynjarar eru með innbyggða sírenu sem hægt er að virkja í gegnum hússtjórnunarkerfið. Því míður er ennþá lítið um snjalla samtengjanlega reykskynjara en það er vonandi ekki langt í að þeir komi á markað.

Gardínur

Það er hægt að snjallvæða gardínur bæði með því að tengja þær með vír eða notast við rafhlöðudrifin kerfi. Það er talsvert um snjalla rafhlöðudrifna gardínumótara. Við höfum enn sem komið er ekki nógu mikla reynslu á þessu til að mæla með einhverjum sérstakum framleiðanda. Við getum heldur ekki almennilega spáð fyrir um rafhlöðuendingu milli hleðslna. Klárlega er þetta lausnin fyrir húsnæði þar sem ekki er hægt að leggja lagnir fyrir gardínumótorstýringar.

Tilbúnar snjallar gardínur (eins og frá IKEA t.d.) fást einungis í ákveðnum stærðum og með ákveðnum efnum. Þess vegna er miklu sniðugara að fara í snjalla gardínumótora þar sem þeir geta aðlagast að nánast hvaða gluggastærð sem er. Það þarf að passa sig á að mótorinn passi inn í gardínustangirnar en þar ræður innanmál þeirra förinni.

Fleiri og fleiri Zigbee gardínumótarar streyma inn á markaðinn sem gerir enn auðveldara að snjallvæða þá. Somfy, stærsti framleiðandinn á þessu sviði, hefur þann ókost að það er frekar erfitt að samhæfa kerfið þeirra við önnur kerfi. Allt er auðvitað hægt en það kostar auðvitað sitt.

Það eru líka til snjallar gardínumótarastýringar sem er hægt að nota með hvaða gardínumótor sem er. Kosturinn við þetta er að úrvalið af gardínumóturum sem hægt er að nota er meira en hins vegar þarf að gera ráð fyrir snjöllum stýribúnaði. Ekki er ráðlagt að stýra fleiri en einum mótor með einum stýribúnað. Það þarf ekki mikið að gerast til að gardínurnar endi ekki á réttum stað og þá er mun erfiðara að stilla mótorana.

Gluggamótorar

Um gluggamótora gilda næstum sömu ráð og fyrir gardínumótara. Stærsti munurinn er að gluggamótarar fást ekki (svo við vitum) í rafhlöðuútgáfu. Hér þarf alltaf að gera ráð fyrir að þurfa snjallan mótorstýringabúnað.

Sumir gluggamótorar eru með fjarstýringu sem keyrir á 433MHZ fjarskiptatíðni. Það er hægt að snjallvæða svoleiðis búnað í sumum tilfellum en þarf að skoða það sérstaklega í hverju tilviki (oftast er það bras og ekki þess virði). Þess vegna kjósum við hér klárlega vírtengda möguleikann.

Bílskúrshurðaopnari

Þó að bílskúrshurðaopnarinn er endirinn á þessum lista þá var þetta fyrsta verkefnið mitt í snjallvæðingu heimilis míns. Með tilkomu Shelly er þetta verkefni orðið ótrúlega einfalt og ódýrt en áreiðanlegt. Það er meira að segja hægt að tengja segulskynjara við. Þannig er hægt að setja sjálfvirknisreglur sem loka bílskúrshurðinni sjálfkrafa eftir fyrirfram ákveðinn tíma.

Skjáborð

Til að geta stýrt snjallheimilinu á snjallvænan hátt þurfum við auðvitað eitthvað app. En flestir nenna ekki endalaust að taka upp símann til að kveikja og slökkja á ljósum, virkja ljósaperur, setja öryggiskerfið í gang eða athuga stöðuna á rafmagnsnotkuninni. Æskilegasta lausnin er því skjáborð sem allir fjölskyldumeðlimir og gestir hafa aðgang að. Það hjálpar mikið í að gera snjallheimili notandavænni og ennþá skemmtilegri. Hentugasti kosturinn eru spjaldtölvur. Spjaldtölvur koma með nægilega stóran skjá sem gerir það auðvelt að átta sig á hlutunum. Skjáborðið þarf helst að vera staðsett í einhverri hæð (140sm frá gólfi) svo auðvelt sé að horfa á skjáinn. Ef notast er við spjaldtövur þarf að hugsa um spennufæðinguna þar sem við viljum ekki stanslaust þurfa að taka spjaldtölvuna af veggnum að hlaða hana. Flestar spjaldtölvur hlaðast í gegnum USB kapall sem er 5V lágspenna. Lágspennan hefur þann ókost að það sé ekki hægt að hafa spennugjafann langt frá spjaldtölvunni. Þess vegna er gott að notast við spennugjafa sem hægt er að setja í venjulega rafmagnsdós. Að auki þurfum við að hugsa um rafhlöðuendingu. Ekki er gott að hafa spjaldtölvuna í stanslausu sambandi ef rafhlaðan á að duga eitthvað. Þá þurfum við að koma með lausn fyrir þann sem kveikir á spennugjafa þegar hleðslan er komin í 20% og slökkva á henni þegar hún er komin upp í 80%. Flestir spjaldtölvur (Android eða Ipad) eru með „skynjara” sem mælir rafhlöðuna og því er auðvelt að koma snjöllu hleðslukerfi á.

Innihald